Þann 7. desember 2009 var haldið í Klifi, Snæfellsbæ málþing með yfirskriftinni Sjávarfang í sjávarbyggð, hvar liggja tækifærin? 

Fyrir málþinginu stóð Átthagastofa Snæfellsbæjar - með stuðningi frá Gáttum, SSV - þróun og ráðgjöf og Snæfellsbæ - en Átthagastofa sér um verkefnisstjórn Krókaverkefnisins (sjá nánari upplýsingar síðar).

Á þessum vef er að finna upplýsingar um málþingið og það sem þar kom fram.
Aðstandendur málþingsins munu nýta niðurstöður til frekari vinnu með viðfangsefnið.

Þátttakendum er þökkuð samveran og þeirra mikilsverða framlag á málþinginu.
Vonast er til þess að þátttakendur og aðrir áhugasamir geti haft gagn af umræðum fundarins og þeim efnivið sem hér birtist og að það muni kveikja hugmyndir og ýta undir frekari þróun. 

Markmið málþingsins voru:

       Að hvetja til vöruþróunar og aukins framboðs á fiskafurðum af heimaslóð á Snæfellsnesi með því að koma á tengslum veitingamanna og fiskverkenda á Snæfellsnesi

       Að vekja athygli á mikilvægi þess að almenningur, bæði íbúar Snæfellsness og gestir, eigi greiðan aðgang að fiskafurðum, ferskum og vel framreiddum

       Að draga fram mikilvægi sjávartengingar svæðisins, hvað varðar vöruþróun, ímynd og markaðssetningu á Snæfellsnesi og skerpa um leið á sjálfbærnihugsun

       Að sjá og heyra um áhuga og hugmyndir þeirra aðila, sem eru til kallaðir á þetta málþing

Væntingar um vöruþróun eru m.a. þær að hægt verði að:

       Koma á laggir og kynna formlegan „fiskisúpu slóða“ milli „matarkróka“ á Snæfellsnesi

       Koma á fót fisksölu með ferskum fiski til almennings á Snæfellsnesi